Að halda glugganum opnum- samstarf við félagsþjónustuna

Útdráttur
Þann 1. febrúar 2013 hóf embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum tilraunaverkefni til eins árs í samstarfi við félagsþjónusturnar á Suðurnesjum. Markmiðið var að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi með markvissari fyrstu viðbrögðum lögreglu, fækka ítrekunarbrotum, bæta tölfræðivinnslu, aðstoða þolendur og gerendur markvisst, nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að mál ná fleiri málum í gegnum refsivörslukerfið. Verkefnið ber yfirskriftina „Að halda glugganum opnum“.

Stofnun: Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
Starfsmenn: 100
Heyrir undir: Innanríkisráðuneytið
Tengiliður vegna verkefnis: Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri
Tölvupóstur:   sbg@logreglan.is

Af hverju var farið í þessa framkvæmd?
Við yfirferð á heimilisofbeldismálum hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir árið 2011 var ljóst að bæta þyrfti skráningu til samræmis við verklagsreglur Ríkislögreglustjóra frá árinu 2005 en mikið ósamræmi var í afgreiðslu slíkra mála þrátt fyrir reglurnar. Þá var ljóst að fá heimilisofbeldismál fengu framgöngu innan réttarkerfisins og rannsóknum málanna var mjög ábótavant. Úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili voru afar lítið nýtt og stuðning skorti fyrir þolendur og eftir atvikum gerendur. Að mati embættisins var þörf á viðhorfsbreytingu vegna heimilisofbeldis og markvissari nálgunar og samstarfs samstarfsaðila er koma að málaflokknum. Verkefnið hófst þann 1. febrúar 2013 í samvinnu við félagsþjónustuna í Reykjanesbæ, félagsþjónustu Grindavíkur, og félagsþjónustur Sandgerðis, Garðs og Voga.

Framkvæmd
Við upphaf heimilisofbeldismála er áhersla verkefnisins á að taka málin föstum tökum frá upphafi og af meiri alvöru en áður. Að mati lögreglu gefst við upphaf mála af þessu tagi fyrsta og langoftast eina tækifærið til að hafa áhrif á framgang málsins með bættri vettvangsrannsókn. Í því felst m.a að taka upp framburði aðila og vitna, leggja áherslu á að þolandi sæti læknisrannsókn, kalla félagsþjónustu til hvort heldur sem börn eru á heimili eða ekki, að úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og sá stuðningur sem í boði er fyrir þolendur og gerendur séu kynnt, og farið sé í eftirfylgni með heimsókn á heimili innan viku frá atburði.
Í þeim tilvikum þar sem börn eru ekki á skráð eða stödd á heimili þarf munnlegt samþykki þolanda til að starfsmaður félagsþjónustu sé kvaddur á vettvang. Með tilkomu starfsmanns félagsþjónustu á vettvangi heimilisofbeldismála er brotaþola og börnum sýndur meiri stuðningur og starfsmennirnir geta verið vitni af atburðum sem styðja við framhald málsins. Er það mat lögreglu og félagsþjónustu að með þessu verklagi sé meiri möguleiki á samstarfi við brotaþola og að brotaþoli leiti læknisaðstoðar. Þá er einnig markmið að fá geranda til að leita sér aðstoðar.
Innan viku frá atviki fer rannsóknarlögreglumaður og starfsmaður félagsþjónustu á heimili og gerð er skýrsla hjá lögreglu um heimsóknina. Er það mat lögreglu að við slíka heimsókn sé betur unnt að fylgjast með hvort hið ætlaða ofbeldi sé hætt eða sé enn til staðar með tilheyrandi hættu fyrir þolanda og börn á heimili. Þá hefur lögregla jafnframt möguleika á að taka afstöðu til þess hvort slík hætta stafi af ofbeldinu að lögreglustjóri telji ástæðu til að ákvarða nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili sbr. lög nr. 85/2011. Embættið áhættugreinir öll heimilisofbeldismál sem upp koma hjá embættinu til að leggja mat á hvaða líkur eru á ítrekunarbrotum og hve miklar líkur eru á mjög alvarlegum atburði, en slík áhættugreining er einnig nýtt við ákvörðun lögreglustjóra hvort leggja beri á nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Niðurstaða
Verkefnið „að halda glugganum opnum“ er enn í gangi en eins og fyrr sagði er það tilraunaverkefni  til eins árs. Að mati embættisins hefur verkefnið gefist afar vel en nokkrir þolendur hafa m.a. þakkað fyrir þá aðstoð sem þeim var veitt og borið um að hafa loks fengið þá aðstoð sem til þurfti til að rjúfa ofbeldissamband. Forvarnargildi verkefnisins er ekki fyrirséð en búast má við að það sé mikið ef metnar eru þær alvarlegu afleiðingar sem heimilisofbeldi hefur á þolendur og börn á heimilum.
Það er mat embættisins að heimilisofbeldi sé ekki einkamál fólks, það sé þjóðfélagslegt mein sem beri að uppræta enda hafi slíkur atburður mun víðtækari áhrif en á geranda og þolanda, bæði tilfinningaleg og fjárhagsleg.
Fjöldi heimilisofbeldismála á landinu öllu skiptis þannig að á höfuðborgarsvæðinu eru rúm 68% málanna,  rúm 15%  á Suðurnesjum og rúm 16% annars staðar á landinu. Frá 1. janúar 2013 til 6. nóvember 2013 hafa ákvarðanir um nálgunarbann og brottvísun af heimili verið teknar í 14 heimilisofbeldismálum hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum af 21 máli alls af öllu landinu eða sem svarar um 67% tilvika. Á Suðurnesjum búa um 6,7% íbúa landsins svo samanburðurinn við hlutfall málafjölda heimilisofbeldismála er athyglisverður. Samanborið við aðra landshluta virðist sem tíðni heimilisofbeldismála sé hærri á Suðurnesjum en annars staðar á landinu. Þetta kann þó að skýrast að hluta á góðri og réttri skráningu þessa málaflokks hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Árið 2012 voru um 60% málanna kærð til lögreglu en það sem af er árinu 2013 virðist sem hlutfallið hafi hækkað í um 70%. Virðist því sem verkefnið sé þegar að skila árangri.

Lærdómur
Eins og að framan er rakið er verkefnið enn í gildi. Embættið hefur beitt sér fyrir breytingum á lögum vegna nýtilkominna laga nr. 85/2011 eftir reynslu af verkefninu. Það er mat embættisins að árangur sé að nást með verkefninu og að fleiri mál muni fá framgang í refsivörslukerfinu sem bein afleiðing þess. Þá eru ýmiss teikn á lofti sem benda til að verið sé að koma í veg fyrir ítrekunar brot.  Það er mat embættisins að gerendur og þolendur séu í auknum mæli að leita sér aðstoðar. Vonir standa til að með verkefni sem þessu aukist traust borgaranna á lögreglunni og öryggisnet samfélagsins eflist með aukinni samvinnu lögreglu og félagsþjónustu. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telur sýnt að með breyttum áherslum og forgangsröðun séu miklir möguleikar til staðar án teljandi kostnaðaraukningar og/eða lagabreytinga.

Hvernig upplifði starfsfólkið nýsköpunina?
Verkefnið mætti í fyrstu nokkurri fyrirstöðu enda fylgir áherslubreytingunum töluverð aukin vinna. Sú fyrirstaða hvarf skjótt þegar árangur erfiðisins fór að sýna sig. Yfirmenn lögfræðisviðs, rannsóknardeildar og almennrar deildar halda utan um verkefnið í sameiningu og þróa það áfram og hefur sú nálgun tryggt víðara sjónarhorn og meiri stuðning en verið hefði ef ein af þessum einingum hefði tekið verkefnið yfir.

 

PDF

Samstarf við félagsþjónustuna

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is