Geðheilsustöðin í Breiðholti hlýtur Nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015

Föstudaginn 23. janúar sl. voru afhent verðlaun og viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015 á hádegisverðarfundi sem haldin var að Grand hótel Reykjavík. Um 160 manns mættu á fundinn sem haldin var á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Reykjavíkurborg fékk nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015 fyrir verkefnið Geðheilsustöð Breiðholts.

Í rökstuðningi valnefndar kemur m.a. fram "að Geðheilsustöðin í Breiðholti sé tímamótaverkefni í þjónustu við geðfatlaða. Með Geðheilsustöðinni er ætlunin að veita heildræna þjónustu fullorðnum einstaklingum sem greindir hafa verið með geðraskanir og draga m.a. þannig úr innlögnum á geðsvið Landspítalans. Innan Geðheilsustöðvarinnar starfar þverfaglegur hópur fagfólks sem vinnur eftir batahugmyndafræðinni þar sem notendum er hjálpað til að byggja upp betri sjálfsmynd og aukna vitund um eigið vald og val í lífinu. Í batastýrðri þjónustu er gjarnan nýtt persónuleg reynslu þeirra sem hafa náð bata af geðröskunum og hafa fyrrum notendur þjónustunnar orðið liðveitendur. Verkefnið hefur m.a. leitt til þess að  innlögnum frá íbúum í Breiðholti á geðsvið Landspítalans hefur fækkað um 28%  frá því að Geðheilsustöðin tók til starfa.  Um er að ræða umfangsmikið verkefni með hátt almannagildi.  Skipulag og útfærsla þess er til fyrirmyndir.  Verkefnið er mikilvægt fyrir þjónustuþeganna, samfélagið og stofnunina.  Jafnframt getur aðferðafræðin nýst öðrum."

Hér má sjá myndband sem Reykjavíkurborg gerði um verkefnið:

Geðheilsustöð Breiðholts from Breiðholt on Vimeo.

 

Fimm önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015. Þau verkefni eru í stafrófsröð:

 

1) Hafnarfjarðarbær fyrir verkefnið Áfram! Ný tækifæri í Hafnarfirði!

Í rökstuðningi valnefndar kemur fram að: "í verkefninu Áfram! hafi verið gerðar áherslubreytingar á þjónustu er snýr að þeim einstaklingum sem þurfa á fjárhagsaðstoð bæjarins að halda. Innleiddir hafi verið nýir verkferlar með áherslu á vinnu- og virkniúrræði og gerðar breytingar á greiðslum þeirra sem hafna þátttöku í vinnu eða virkni. Verkefnið er unnið á grunni virkrar velferðarstefnu þar sem áhersla er á að auka virkni og tækifæri notenda til sjálfsbjargar og uppbyggingar. Um er að ræða nýsköpun og framþróun í félagsþjónustu sveitarfélaga með hátt almannagildi.  Árangur hefur ekki aðeins skilað sér í markvissari þjónusta gagnvart notendum heldur hefur verkefnið einnig leitt til þess að þróun mánaðarlegra útgjalda til fjárhagsaðstoðar hefur lækkað."

Hér má sjá myndband sem Hafnarfjarðarbær gerði um verkefnið:

 

2) Embætti Landlæknis og Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins fyrir verkefnið VERA.

Í rökstuðningi valnefndar segir m.a. að VERA sé tímamóta verkefni í íslenskri heilbrigðisþjónustu.  Með VERU er verið að taka í notkun heilbrigðisgátt sem veitir einstaklingum margvíslegar upplýsingar um eigið heilsufar með rafrænum hætti, eins og lyfjaupplýsingum og ofnæmi. Þetta verkefni er eftirtektarvert, það hefur mikið almannagildi og felur í sér nýsköpun á sviði heilbrigðismála sem mun snerta flest alla ef ekki alla Íslendinga á komandi árum.  Það eru ekki síst þeir möguleikar sem felast í framtíðarþróun þess sem eru spennandi en unnið er að því að bæta við kerfið að einstaklingar hafi aðgang að upplýsingum um heimsóknir á heilsugæslustöðvar, legur á sjúkrahúsum, aðgerðir á sjúkrahúsum og upplýsingum um hver hefur flett þeim upp í sjúkraskránni svo eitthvað sé nefnt.

Hér má sjá myndband sem Landlæknisembættið og Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins gerðu um verkefnið:

 

3) Langanesbyggð fyrir verkefnið Vinnustofur í Grunnskólanum á Bakkafirði.

Að mati valnefndar hefur Grunnskólinn í Bakkafirði sett fram athyglisverða kennsluaðferð sem fellst í því að nemendur taka aukna ábyrgð á eigin námi, ásamt því að sköpunargáfa og hugmyndarflug fá að njóta sín, lýðræði er aukið og fólk í samfélaginu fær aukna innsýn í skólastarfið. Með notkun vinnustofa fá nemendur að miklu leyti að ráða viðfangsefnum er tengjast samfélagsgreinum og náttúrufræði. Um er að ræða verkefni sem er með hátt almannagildi, er mikilvægt fyrir stofnunina og getur nýst öðrum. Verkefnið hefur m.a. leitt til þess að nemendur eru ánægðari og jákvæðari í  garð samfélags- og náttúrufræði.

Hér má sjá myndband sem Langanesbyggð gerði um verkefnið:

 

4) Reykjavíkurborg fyrir verkefnið Næringarútreiknaðir matseðlar

Í rökstuðningi valnefndar segir m.a. að Næringarútreiknaðir matseðlar, örútboð og matarsóun sé eitt af strærri heilbrigðisverkefnum þessarar þjóðar.  En forsenda þess að stuðla að heilbrigði fólks hefst m.a. með heilbrigðu og næringarríku matarræði fyrir börnin.  Verkefnið tekur á fjórum mikilvægum þáttum, þ.e. lýðheilsu barna, umhverfissjónarmiðum, matarsóun og hagræðingu í rekstri með það að markmiði að hámarka virði máltíða. Þó að verkefnið hafi ekki verið innleitt í alla skóla í Reykjavík þá er ljóst að um er að ræða verkefni sem hefur mjög mikið almannagildi, aðferðafræðin getur nýst öllum mötuneytum hvort sem þau er fyrir börn og ungmenni í skólum eða fullorðið fólk á vinnustöðu.

Hér má sjá myndband sem Reykjavíkurborg gerði um verkefnið:

Næring og heilsa grunnskólabarna - Mötuneyti SFS from SFS Myndband on Vimeo.

 

5) Seltjarnarnesbær fyrir verkefnið Ungmennaráð Seltjarnarnes

Að mati valnefndar er þarna um að ræða lausnarmiðað verkefni sem fólst í því að breyta fyrirkomulagi þess til að virkja fleiri ungmenni til þátttöku í sveitarfélaginu.  Verkefnið snýst um að taka ungmennaráðið úr hefðbundnu nefndarfyrirkomulagi með lokuðu ráði og opna fyrir frekari þátttöku allra þeirra sem vilja taka þátt.  Um er að ræða verkefni sem grundvallast á hugmyndum um beinna lýðræði og samvinnu sem hefur virkjað mun fleiri til þátttöku í verkefnum Ungmennaráðsins en ella hefði orðið.  Jafnframt styrkir það innbyrðis tengsl ungmenna annars vegar og tengsl þeirra við ýmsar stofnanir og félagasamtök í bænum hins vegar.

Hér má sjá myndband sem Seltjarnarnesbær gerði um verkefnið:

 


 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is